Dagur leikskólans

06 Feb 2019

Í dag er mikill hátíðardagur í Lyngholti. Við héldum upp á dag leikskólans í tólfta skiptið en það var þennan dag árið 1950 sem frumkvöðlar leikskólakennara stofnuðu sín fyrstu samtök. Leikskólar um allt land eru hvattir til að gera sér dagamun og í Lyngholti gerðum við það með tvenns konar hætti. Við fögnuðum sólarkomunni með því að bjóða eldri borgurum í kaffi og sólarpönnukökur en einnig flögguðum við grænfánanum í sjötta sinn.

Lyngholt er skóli á grænni grein. Það þýðir að umhverfismennt er stór hluti af okkar skólastarfi og á tveggja ára fresti flöggum við grænfánanum ef við höfum staðið okkur vel. Við höfum sýnt það og sannað að í gegnum árin höfum við unnið samviskusamlega að umhverfismálum og í dag kom því fulltrúi frá landvernd og afhenti okkur fánann. Við tókum stolt á móti fánanum og stefnum við á áframhaldandi vinnu í umhverfismálum næstu árin.