news

Öðlingar í útskriftarferð

24 maí 2018

Öðlingar skelltu sér í rútu og upp í Hallormsstaðarskóg á þriðjudaginn. Hún Begga skógarvörður tók á móti okkur og fór með okkur í göngu um skóginn, sýndi okkur trjásafnið og ýmislegt annað áhugavert sem á vegi okkar varð. Við sáum þegar tré var fellt, máttum meira að segja velja það tré sem við vildum fella. Það var hann Bjarki sem felldi tréð og fór hann síðan með okkur að eldstæðinu þar sem við grilluðum okkur „ormabrauð“ en það er deig sem búið er að vefja upp á trjágrein sem síðan er bakað í eldinum. Ekki voru allir sem höfðu þolinmæði til að bíða eftir að brauðið yrði tilbúið, því það tók smá tíma að grilla það í gegn en þeir klifruðu þá bara í trjánum á meðan.

Við enduðum ferðina í á því að ganga yfir í Atlavík þar sem við lékum okkur við fljótið, hentum steinum og greinum í það, borðuðum pizzu og drukkum vatn og djús með.

Eftir það var ferðinni heitið aftur til Reyðarfjarðar þar sem við fórum í heimsókn á slökkvistöðina. Vel var tekið á móti okkur þar af þeim frábæru slökkviliðsmönnum sem þar starfa. Þeir leyfðu okkur að fara inn í sjúkrabílana og skoða slökkviliðsbílana. Við fengum meira að segja að fara í kranakörfuna en því miður mátti ekki hýfa okkur upp. En það kom ekki að sök því við máttum í staðinn sprauta úr brunaslöngunni yfir planið og það var sko ekki leiðinlegt. Við enduðum heimsóknina á því að gæða okkur á kexi og Svala sem okkur var boðið upp á.

Það voru því þreyttir en sáttir Öðlingar sem komu til baka í leikskólann eftir frábæran og eftirminnilegan dag.