news

Ráðstafanir í leikskólanum Lyngholti til þess að koma í veg fyrir mislingasmit

06 Mar 2019

Eins og fram hefur komið í fréttum er staðfest mislingasmit hjá einstaklingi í Fjarðabyggð. Þar sem viðkomandi einstaklingur átti leið um leikskólann Lyngholt á Reyðarfirði á meðan hann var smitandi hafa eftirfarandi ráðstafanir verið ákveðnar af framkvæmdastjóra lækninga hjá HSA að höfðu samráði við sóttvarnarlækni.

Frá 06.03.2019 verða öll börn og starfsmenn Lyngholts sem ekki hafa verið bólusettir eða fengið mislinga og voru í leikskólanum fimmtudaginn 28.02. sl. beðin um að vera heima í tvær og hálfa viku eða til og með föstudagsins 22.03.2019, með sem minnstu samneyti við almenning og óbólusetta einstaklinga. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að barn/fullorðinn sem kann að hafa smitast í leikskólanum smiti út frá sér. Með þessum ráðstöfunum þá erum við að reyna að tryggja að einstaklingar sem kunna að hafa smitast muni ekki smita aðra.

Sett hefur verið á laggirnar símaþjónusta í símanúmeri 1700 (sólarhringsvakt) sem leiðbeinir fólki frekar um allt sem viðkemur mislingum og hvert fólk á að leita ef það telur að það eða börn hafi smitast eða veikst af mislingum.

Bólusett börn og starfsmenn geta haldið áfram að vera í leikskólanum. Þessi hópur er með vörn gegn því að smitast.

Nánari upplýsingar um mislinga og ráðstafanir vegna þeirra er að finna á vefsíðu HSA – hsa.is, s: 4703081 og vefsíðu Landlæknisembættisins – landlaeknir.is