Við tökum mið af hugmyndafræði þeirri sem felst í Fjölgreindarkenningu Howards Gardners en þar er lögð áhersla á alla þroskaþætti barnsins.

Gardner hefur sett fram hugmyndir um að greind mannsins samanstandi af fleiri en einni greind. Með þessari kenningu er Gardner að víkka sýn á mannlega möguleika og hæfileika út úr ramma hefðbundinna greindarprófa. Hann telur að greindarpróf séu ekki áreiðanlegur mælikvarði þar sem þau hafi sín takmörk og prófi ekki allt litróf mannlegra hæfileika. Hann skilgreinir greind sem hæfileika til að leysa þrautir eða vandamál annars vegar og hins vegar að hanna afurðir í góðu samspili og samhengi við umhverfið.

Gardner telur að greind mannsins samanstandi af 8 eða fleiri greindarsviðum. Greindirnar þroskast misjafnlega hjá einstaklingum og á ólíkum tíma. Einstaklingar læra ólíkt eftir því hvaða greindarsvið eru sterkust hjá þeim og þeir bregðast misvel við kennsluaðferðum. Mikilvægt er að hafa í huga að:

 • Hver einstaklingur býr yfir öllum greindunum
 • Flestir geta þróað hverja greind á viðhlítandi getustig
 • Greindirnar starfa saman á flókinn hátt
 • Það er hægt að vera greindur á mismunandi hátt á hverju sviði
 • Ein tegund greindar er ekki mikilvægari en sú næsta

Það er því mikilvægt að gefa börnum tækifæri til fjölbreyttra leikja og verkefna svo þau fái tækifæri til að þroskast sem best.

Þær greindir sem Howard Gardner hefur kortlagt eru eftirfarandi:

 • Málgreind: Hæfileiki til að hafa áhrif með orðum, bæði munnlega og skriflega
 • Rök-og stærðfræðigreind: hæfileiki til að nota tölur á árangursríkan hátt og hugsa rökrétt
 • Rýmisgreind: Hæfileiki til að skynja hið sjónræna og rúmfræðilegt umhverfi
 • Líkams-og hreyfigreind: Færni í að nota allan líkamann til að tjá hugmyndir og tilfinningar og leikni til að búa til hluti og nota þá
 • Tónlistargreind: Hæfileiki til að skynja, meta, skapa og tjá tónlist
 • Samskiptagreind: Hæfileiki til að skilja og greina skap og tilfinningar annarra
 • Sjálfsþekkingargreind: Sjálfsþekking og hæfni til að lifa og starfa á grunni þeirrar þekkingar. Skýr sjálfsmynd og þekking á eigin styrk og veikleikum
 • Umhverfisgreind: Hæfni í að þekkja og flokka fjölda tegunda úr jurta- og dýraríkinu auk næmni fyrir fyrirbærum náttúrunnar

Við völdum okkur einkunnarorðin: ALLIR GETA EITTHVAÐ, ENGINN GETUR ALLT. Með því leggjum við áherslu á styrkleika hvers og eins og með því viðurkennum við að það eru ekki allir eins, við höfum mismunandi sterkar greindir. Við sköpum örvandi námsumhverfi þar sem hver og einn nálgast nám sitt á eigin forsendum og fær notið sín sem einstaklingur.