Saga Lyngholts

Sumarskóli tók til starfa á Reyðarfirði vorið 1963 og var hann þá til húsa í grunnskólanum. Hann var starfræktur með hléum til ársins 1977 en þá var starfsemin flutt í Hermes þar sem boðið var upp á fjögurra klst. vistun bæði fyrir og eftir hádegi. Í Hermes var rekinn heilsársskóli allt til haustins 1984 en 3.október það ár var flutt í tveggja deilda leikskóla við Heiðarveg 5. Leikskólinn var hins vegar formlega tekinn í notkun og vígður af frú Vigdísi Finnbogadóttur, forseta Íslands sumarið 1985 og hlaut þá nafnið Lyngholt.


Í byrjun var einungis helmingur húsnæðisins nýttur fyrir starfsemi leikskólans, hluti húsnæðisins var nýtt af grunnskólanum og um tíma var þar til húsa skrifstofa Reyðarfjarðarhrepps. Haustið 1993 fékk svo leikskólinn húsnæðið allt til umráða, enda hafði starfsemi hans þá aukist umtalsvert.


Vorið 2004 var síðan hafist handa við að byggja tvær deildir til viðbótar við skólann auk þess sem eldra húsnæði var endurbyggt og telur nú skólinn fjórar deildir, rúmgóðan sal og listastofu, stórt og velbúið eldhús og góða starfsmannaaðstöðu. Haustið 2005 var allt húsnæðið komið í notkun og framkvæmdum við nýja og glæsilega lóð verður senn lokið. Skólinn var vígður þann 1.desember ásamt öðrum nýjum skólabyggingum á Reyðarfirði.

Í dag erum við með eina deild, með elstu börnunum okkar, í húsnæði grunnskólans, heitir sú deild Öðlingasel. Þar höfum við verið frá nóvember 2014. Svo bættist sjötta deildin við um áramótin 2017/2018 og er hún staðsett í húsnæði Félagslunds og ber hún nafnið Lundarsel.

Ýmis félagasamtök hafa í gegnum tíðina stutt við starfsemi leikskólans m.a. með því að gefa ti hans ýmsan efniðvið, leiktæki, húsgögn og öryggisbúnað. Í tengslum vð byggingarframkvæmdirnar 2004-2005 stóðu mörg fyrirtæki og félög fyrir myndarlegum gjöfum til leikskólans. Þessi mikli stuðningur hefur eflt og styrkt leikskólastarf á Reyðarfirði.


hér má nálgast þá námskrá sem nú er unnið eftir námskrá 2017.docx