news

Fréttir frá Asparholti!

10 Mar 2022

Hæhó!

Við í Asparholti höfum brallað ýmislegt síðustu vikur og langar okkur að segja ykkur nánar frá því.

Lundarsel

Það hefur verið mikið stuð í Lundarseli hjá okkur. Analyn er alltaf spræk með dans inn í íþróttasal og þykir börnunum afskaplega gaman að fá að dansa og hreyfa sig við tónlist. Hilmar sér um einingakubba og læra börnin að byggja flottar byggingar samhliða því að fara eftir einingakubbareglum. Katrín hefur verið með stærðfræði í Lundarseli og hefur verið að styðjast við “leikum og lærum” þrautabrautir. Þar stillir hún upp þrautabrautum með stærðfræðiívafi þar sem krakkarnir æfa sig að telja, þekkja litina, þekkja tölustafina ofl. Það er því aldrei leiðinlegt hjá okkur á mánudögum! ???? Einnig má nefna að í málörvun á fimmtudögum höfum við verið að ríma, lesa rímsögur og ríma með myndum, næst á dagskrá verður að æfa hlustun og minni og þar á meðal halda áfram að klappa samstöfur ????

Blær

Í blæstundum höfum við verið að ræða um vináttu og hvað það er að vera góður vinur. Þar á meðal höfum við rætt um almennar reglur sem gilda í leikskólanum. Við lesum líka vandræðasögur, við stoppum fyrir miðju þar sem stærstu átökin eru að eiga sér stað og rifjum upp hvað kom fyrir og ræðum hvernig má leysa vandann. Eftir umræðuna klárum við söguna sem endar vel að lokum. Einnig endum við stundirnar gjarnan á að syngja blæ lög en lagið “Kanntu að hoppa?” er í uppáhaldi hjá okkur um þessar mundir.

Göngutúrar

Í göngutúrum höfum við verið að labba um bæinn og annað slagið stoppum við á einhverri endastöð og leikum okkur. Í lok febrúar fórum við í göngutúr í miklum snjó og tókum við þá ákvörðun að mála snjóinn. Það þótti okkur rosalega skemmtilegt! Við skildum eftir okkur flott listaverk á snjóskafli við Heiðarveginn, börnin voru mjög sátt með verkið.

Listastarf

Í listastarfi fengu börnin í Asparholti að mála myndir einungis með höndunum. Þau fengu að ráða alveg sjálf hvernig þau skildu mála myndina. Sumum fannst æði að fá að skíta hendurnar vel út og vildu helst mála allan daginn á meðan öðrum fannst þetta hálf subbulegt og reyndu að vera búin sem fyrst. Listaverkin komu skemmtilega á óvart og vorum við mjög ánægð með þetta.

Öskudagur

Það var mikið stuð á öskudeginum. Við hittum Eini- og Greniholt inni í Reyniholti. Þar sungum við saman og skelltum í örlítið öskudagsball eftir á. Börnin höfðu mjög gaman af því að dansa og skemmta sér og nutum við okkur í botn.

Asparholt hefur því skemmt sér svo sannarlega síðustu vikur og hlakkar okkur til að halda áfram á þessari braut.

Kveðjur úr Asparholti!