news

Fréttir frá Furuholti

04 Sep 2023

Sæl öll!

Við í Furuholti erum ánægð að vera komin aftur á leikskólann. Við höfum verið að bralla ýmislegt núna í ágúst og hefur það allt verið einstaklega skemmtilegt.

Útinám

Fyrsti í útinámi var þriðjudaginn, 28. ágúst. Við í Furuholti og Birkiholti byrjuðum morguninn á að rölta niður að andapolli. Á leiðinni æfðum við hvernig skal fara yfir götu, passa að fara yfir gangbrautir þar sem þær eru, stoppa og muna að líta til beggja hliða, hlusta og ganga yfir þegar það er öruggt.

Þegar komið var að andapollinum settumst við niður í grasið og fórum í samverustund. Við sungum eitt lag, fórum yfir dagsskipulagið og kenndum þeim heimkall.

Heimkall virkar þannig að kennarar í Birki- og Furuholti hafa á sér flautu. Börnin mega leika þar sem kennarar sjá til þeirra en þegar kennari flautar í flautuna þá eiga nemendur að koma til kennaranna. Þetta gekk mjög vel.

Börnin fengu að leika frjálst og kynnast svæðinu, við tókum með okkur málningu til að mála útikennslufánann okkar sem verður alltaf flaggað í útikennsluvagninum þegar útikennsla er. Þetta var listaverk sem flestir gerðu eitthvað í, það heppnaðist mjög vel.

Við vorum ekkert smá heppin með veður þennan dag, þannig börnin fengu að vaða í andapollinum. Mikil gleði og spenna fylgdi því.

Við borðuðum svo saman baunarétt sem við fengum sendan til okkar. Allir voru orðnir mjög svangir eftir viðburðaríkan dag og borðuðu því flestir mjög vel.

Þegar allir voru orðnir saddir ákváðum við að taka stutta hvíld úti í náttúrunni. Sum börnin lögðust niður á meðan önnur sátu. Þau áttu að loka augunum og hlusta á þau ólíku hljóð sem heyrast í náttúrunni. Sumir heyrðu í öndunum, í bílum, golunni, flugvél og fleiru.

Þegar við vorum orðin úthvíld og slök byrjuðum við að labba til baka í leikskólann. Kennararnir vorum ánægðir með hvernig gekk fyrsta daginn í útinámi og hlakkar okkur til framhaldsins.

Sendiferð

Við tókum eftir því að það væri sniðugt að hafa bakpoka fyrir börnin í Birki og Furu í útináminu. Leikskólinn fékk gefins poka frá banka sem mun koma að góðum notum í okkar starfi í framtíðinni. Nokkur börn úr Furuholti fóru í fylgd með kennara að sækja bakpokana og þótti þeim það mjög gaman. Einn strákurinn fór meira að segja úr skónum því maður á ekki að vera í bankanum í skónum að hans sögn. Bankakonan tók vel á móti okkur og spjallaði við börnin og afhenti þeim pokana. Börnin þökkuðu kærlega fyrir þá fyrir hönd leikskólans.

Sveindís Kata kveður

Sveindís okkar í Furuholti kveður okkur og þakkar kærlega fyrir samveruna. Hún var svo góð að gefa öllum í Furuholti ís síðasta daginn sinn, það gladdi alla. Við héldum svo smávegis kveðjupartý með vali og stop dans. Við munum sakna Sveindísar mikið og óskum henni góðs gengis á nýjum stað.