news

Fréttir frá Greniholti

03 Feb 2022

Góðan daginn og gleðilegt nýtt ár!

Við í Greniholti erum komin á fullt eftir hátíðarnar og hefur janúar verið heldur betur fjörugur og skemmtilegur hjá okkur.

Málörvun

Einu sinni í viku fara börnin í málörvun hjá Auði þar sem þau lesa bækur, skoða vísur, æfa rím og margt fleira. Í síðustu viku sagði Auður þeim söguna af Búkollu og notaði fígúrur sem við fengum að láni. Þetta fannst börnunum hrikalega skemmtilegt og hlustuðu af miklum áhuga.


Listastarf

Það er alltaf jafn gaman í listastarfi hjá Asiu. Þar mála þau allskyns listaverk sem eru oftar en ekki hengd upp á veggi hér innan leikskólans. Í janúar gerðu börnin kórónur fyrir þorrablótið okkar og komu þær rosalega vel út.



Stærðfræði

Ola sér um stærðfræði hjá okkur einu sinni í viku. Börnin eru mjög áhugasöm í tímunum og notar hún allskyns leiki og lög til að koma efninu til skila. Þau hafa verið mjög dugleg að æfa sig að telja og eins að æfa litina og gengur mjög vel.


Tónlist

Tónlistastarf er nýtt hópastarf hjá okkur í Greniholti sem Ola sér um. Þetta finnst börnunum alveg frábært og eru alltaf glöð og áhugasöm í tímum. Þarna fá þau að kynnast allskyns hljóðfærum og hljóðum ásamt því að dansa og syngja með.


Þorrablót 2022

Þann 28.janúar síðastliðinn var árlegt Þorrablót hjá okkur í Lyngholti. Þá komu allir í sparifötum í leikskólann og við gerðum okkur glaðan dag. Við lékum okkur með bein eftir morgunmat og fórum síðan á sameiginlegan söngfund með Eini- og Asparholti sem endaði með dansi. Í hádeginu fengum við síðan þorramat að smakka sem fór misvel í börnin en allir smökkuðu. Börnunum fannst þessi dagur skemmtilegur og nutu vel.



Kærar kveðjur frá okkur í Greniholti!