news

Fréttir frá Greniholti

28 Des 2021

Í desember hefur verið mikið um að vera hjá okkur í Greniholti. Við höfum verið dugleg að syngja jólalög og læra um jólasveinana. Börnunum finnst mjög spennandi að velta þeim bræðrum fyrir sér og segja okkur hvað þau fengu í skóinn. Við höfum verið dugleg að bralla ýmislegt sem hefur brotið upp annars hefðbundna daga hjá okkur.

Jólaföndur

Jólamánuðurinn hefur einkennst af miklu föndri hjá okkur en við höfum verið að gera ýmiskonar listaverk og má þar nefna að börnin máluðu á kaffipoka með jólalitunum og svo röðuðum við þeim upp á vegg þannig að þeir mynduðu jólatré. Einnig gerðu börnin jólagjöf fyrir foreldra sína sem, á þessu ári, er handafarið þeirra í trölladeigi og kom það virkilega vel út.


Kaffihús

Í byrjun desember var hjá okkur kaffihús þar sem við settumst við kertaljós, borðuðum piparkökur og drukkum kakó og sungum jólalög.


Jólagleði

Þann 17.desember var hjá okkur jólagleði. Þar mættu allir í sínu fínasta pússi og við gerðum okkur glaðan dag saman. Við höfðum jólaball þar sem við dönsuðum í kringum jólatré með Eini- og Asparholti sem vakti mikla lukku hjá börnunum þar sem þau voru búin að æfa jólalögin vel og gátu því sungið og dansað með. Toppurinn á deginum hjá börnunum var líklegast þegar þrír jólasveinar létu sjá sig á gluggunum hjá okkur en þeir komu ekki inn þetta árið. Börnin voru samt lang flest mjög spennt og iðuðu alveg við gluggana. Við fengum síðan jólamat í hádeginu og áttum rólegan dag eftir hádegi.


Eins og sést hefur desember verið alveg yndislegur hjá okkur og við hlökkum til að takast á við nýja árið með þessum litlu snillingum!

Kær kveðja frá Greniholti.