news

Sólskinstíðindi úr Asparholti

16 maí 2022

Hæhó! Nýjustu tíðindi frá Asparholti :)

Umhverfisdagur Lyngholts

Á umhverfisdegi Lyngholts las Katrín fyrir okkur bók um rusl sem lendir á jörðinni og í sjónum. Við lærðum að það á ekki að henda rusli út í náttúruna því það fer illa með jörðina okkar. Eftir söguna fórum við í Asparholti í göngutúr að tína rusl. Við viljum að sjálfsögðu hugsa vel um heimabæinn okkar og jörðina. Við sýndum því lit með því að taka stóran hring um Reyðarfjörð. Við fundum mikið rusl sem hefur legið hér og þar yfir veturinn og var þetta rusl af öllu tagi matarumbúðir, grímur, pizzakassar og fleira. Við tíndum ekki einungis rusl þann daginn heldur gerðum við einnig fínt fyrir framan leikskólann með því að sópa og tína rusl sem hafði safnast þar. Þetta fannst okkur árangursríkur dagur og fórum við reynslunni ríkari heim þann daginn.

Útinám

Við í Asparholti bíðum spennt eftir hækkandi sól og vonandi meiri hita. Okkur þykir mjög gaman að fara í göngutúra að skoða nærliggjandi umhverfi. Í útinámi höfum við verið að tína steina og greinar til að búa til listaverk úr því og hefur það tekist mjög vel. Við fórum í fjöruna til að tína steina og var mjög gaman þar. Við tíndum kringlótta steina og æfðum okkur síðan að fleyta kerlingar. Í baka leiðinni tókum við eftir því að vorið er farið að láta sjá sig. Laufblöð voru byrjuð að blómstra á sumum trjám og við sáum meira að segja falleg blóm sem voru farin að láta sjá sig. Í sumar hlakkar okkur til að skoða skordýr, fuglalíf, plöntulíf og læra úti leiki.

Dans með Analyn

Í Lundarseli höfum við verið að dansa með Analyn. Það er alltaf mikið stuð í dans og komum við okkur í gír fyrir vikuna með dans sporum á mánudögum.

Listastarf

Við tíndum greinar í apríl til að geta unnið með í listastarfi og gafst okkur loks tækifæri til þess. Við máluðum mjög flottar myndir þar sem við notuðum greinarnar í staðinn fyrir pensla. Það kom mjög vel út enda vorum við mjög sátt með útkomuna. Myndirnar voru málaðar í sumarlegum litum. Einnig máluðum við steinana sem við höfðum tínt í fjörunni. Það var mjög gaman að mála steinana sérstaklega vegna þess að við máluðum þá úti og sólin skein á meðan.

Kveðjur úr Asparholti!