news

40 ára samfellt leikskólastarf í ár.

03 Okt 2017

Smá úr námskrá Lyngholts í tilefni afmælisdagsins okkar :)

Saga Lyngholts

Sumarskóli tók til starfa á Reyðarfirði vorið 1963 og var hann þá til húsa í grunnskólanum. Hann var starfræktur með hléum til ársins 1977 en þá var starfsemin flutt í Hermes þar sem boðið var upp á fjögurra klst. vistun bæði fyrir og eftir hádegi. Í upphafi var gert ráð fyrir að leikskólinn væri tvísetinn í fjóra tíma í senn yfir daginn. Í Hermes var rekinn heilsársskóli allt til haustsins 1984 þegar flutt var í tveggja deilda leikskóla við Heiðarveg 5. Leikskólinn var hins vegar formlega tekinn í notkun og vígður af frú Vigdísi Finnbogadóttur, forseta Íslands sumarið 1985 og hlaut þá nafnið Lyngholt.

Í byrjun var einungis helmingur húsnæðisins nýttur fyrir starfsemi leikskólans, hluti húsnæðisins var nýtt af grunnskólanum og um tíma var þar til húsa skrifstofa Reyðarfjarðarhrepps. Haustið 1993 fékk svo leikskólinn húsnæðið allt til umráða, enda hafði starfsemi hans þá aukist umtalsvert.

Vorið 2004 var síðan hafist handa við að byggja tvær deildir til viðbótar við skólann auk þess sem eldra húsnæði var endurbyggt. Fjórar deildir, rúmgóður salur, listastofa, stórt og velútbúið eldhús, starfsmannaaðstað og stór lóð skapa ramma utan um starfsemi skólans. Vígsla skólans fór fram 1.desember 2006.

Ýmis félagasamtök hafa í gegnum tíðina stutt við starfsemi leikskólans m.a. með því að gefa til hans ýmsan efnivið, leiktæki, húsgögn og öryggisbúnað. Í tengslum við byggingarframkvæmdirnar 2004-2005 stóðu mörg fyrirtæki og félagasamtök fyrir myndarlegum gjöfum til leikskólans. Sá stuðningur verður aldrei fullkomlega þakkaður.