news

Fréttir frá Asparholti

14 Jún 2023

Góðan daginn!

Hjá okkur í Asparholti er allt gott að frétta. Við erum búin að vera að bralla ýmislegt síðustu vikur og verið mikið úti í góða veðrinu.

Það var sulludagur hjá okkur 2.júní síðastliðinn en þá fá börnin að fara út í sundfötum eða öðrum léttum klæðnaði og leika með vatn. Í boði var að renna í lítilli vatnsrennibraut, sulla með vatnið í sandinum, láta sprauta á sig eða fara í litlar sundlaugar. Þetta var ótrúlega gaman og allir skemmtu sér konunglega hvort sem þeir vildu bleyta sig eða ekki. ?

Síðustu vikur höfum við verið dugleg að fara í göngutúra. Við höfum til dæmis gengið á leikvöllinn við Hermes og leikið okkur þar og eins höfum við farið á leiksvæðið við grunnskólann sem sló í gegn hjá börnunum. Þau eru mjög dugleg að ganga og skoða umhverfið sitt. Við pælum mikið í fuglum, bílum og gróðri, erum dugleg að fara yfir umferðareglurnar þegar við förum yfir götu og syngjum mikið.

Um daginn fengum við að eyða einum degi á Reyniholti, en það er deildin sem börnin á Asparholti fara á í haust. Börnunum fannst mjög spennandi og skemmtilegt að heimsækja aðra deild og leika með nýtt dót og þau stóðu sig með stakri prýði.

Vikurnar sem eftir eru fram að sumarfríi munu fara í það að njóta sumarsins úti, hvort sem það er í gönguferðum eða á leikskólalóðinni.

Kær sumarkveðja frá Asparholti!