news

Jólafréttir frá Furuholti

15 Des 2023

Allir í jólaskapi í Furuholti

Jólaföndur

Við höfum verið að föndra svolítið í desember og finnst okkur það ekkert smá gaman. Við föndruðum jólatré, jólakúlur og fengum að lita jólalegar litabóka myndir. Lokaútkoman á öllu okkar föndri var ekkert smá flott.

Jólabakstur

Elsa matráður var svo góð að græja fyrir okkur uppskrift af engiferkökum og kom með deigið inn á deild til okkar. Þá vorum við svo agalega heppin að fá að móta okkar eigin kökur fyrir útikaffihúsið. Þetta var ótrúlega gaman og hver veit, kannski laumuðum við smá klípu af deiginu uppí okkur bara til að smakka til hvort hlutföllin hafi ekki örugglega verið rétt hjá henni Elsu.

Útikaffihús

Við ákváðum að fara niður að jólatrénu við hliðina á krónunni og dansa í kringum jólatréð. Draumey úr Birkiholti fékk að koma með okkur og fannst okkur það alls ekki leiðinlegt. Það var afskaplega notaleg stund. Við sungum okkar helstu uppáhalds jólalög og dönsuðum þegar það átti við. Jólaljósin á trénu voru mjög falleg og veðrið var fullkomið. Síðan fengum við heitt kakó og engiferkökurnar sem við bökuðum ásamt annarri sort af kökum sem Elsa bakaði handa okkur. Við borðuðum og drukkum eins og við gátum þangað til við urðum pakk södd. Eftir það fengum við að fara í frjálsan leik. Þetta var mjög vel heppnuð stund og nutum við okkar í botn.

Slökkviliðsheimsókn

Slökkviliðið kom og heimsótti okkur þann 13.desember. Þær voru að ræða við okkur um eldvarnir. Í framhaldi af því fengum við að horfa á tvö myndbönd af Loga og Glóð. Þau hjálpa slökkviliðinu að slökkva eld og minni fólk á að hafa reykskynjara heima í lagi, að eiga eldvarnarteppi og slökkvtæki og þau rifjuðu upp hvaða númer á að hringja í ef það skyldi nú kvikna í. Eftir það sýndi Stefanía okkur hvernig slökkviliðsmenn líta út þegar þeir eru að fara slökkva eld. Þetta var ekkert smá stór og mikill búnaður sem hún þurfti að vera í og fannst okkur þetta mjög áhugavert. Næst fengu þær tvo aðstoðarmenn að hjálpa sér að athuga hvort allir reykskynjarar í leikskólanum væru í lagi. Það gekk mjög vel. Að lokum fengum við með okkur möppu heim af Loga og Glóð og vorum við mjög þakklát fyrir það. Þetta var mjög fróðleg og skemmtileg heimsókn.

Skreyta jólatré

Við öðlingar vorum svo heppin að fá það mikilvæga verkefni að skreyta jólatréð inni á bókasafni. Það gekk mjög vel og lítur tréð ekkert smá vel út!

Jólaball og jólasveinar kíkja í heimsókn

Við byrjuðum morguninn á söngsal með öllum deildum leikskólans. Ingibjörg spilaði á gítar og sungum við jólalög með gleði í hjarta. Eftir það fórum við inn á Furuholt og þá komu allt í einu Giljagaur og Hurðaskellir! Það var mjög gaman, þeir spjölluðu við okkur og við sungum fyrir þá jólasveinar ganga um gólf. Þar á eftir var flæði með Birkiholti og héldum við síðan smá jólaball inni á deild hjá okkur þar sem að við dönsuðum og sungum. Í hádeginu var síðan hangikjöt og með því og vorum við síðan svo heppin að fá ís í eftirrétt!

Það er búið að vera ótrúlega gaman hjá okkur í desember og nóg eftir!

Góðar stundir!